Til lesenda

Nú er svo komið að framtíð mannkyns er orðin dökk vegna loftslagshamfara, hrynjandi vistkerfa og þverrandi auðlinda. Köld og skynlaus „skynsemishyggja“ sem hefur níðst á umhverfi og náttúru öldum saman veldur þessu. Hvalárvirkjun yrði hryðjuverk gegn einstæðum víðernum sem ekki verða metin til fjár og um leið táknmynd fyrir rangsnúna og blinda nytjahyggju sem eingöngu snýst um hagnað fjárfesta. Þess vegna verður að koma í veg fyrir hana.

Framkvæmdin hefur frá upphafi verið illa undirbúin og nú hefur nýjasta klúðrið tengt eignarhaldi á landi sem fer undir stóran hluta virkjunarinnar hleypt nýju lífi og von í baráttuna. Það þurfti mikinn kjark og staðfestu landeigenda til að kæra nýtt deiliskipulag og framkvæmdaleyfi.

Baráttan þarf að fara fram á mörgum vígstöðvum í senn:

  • Mótmælaaðgerðir og borgaraleg óhlýðni á vettvangi.
  • Lögfræðileg barátta í stjórnkerfinu með viðeigandi kærum.
  • Upplýsingar og greinaskrif. Þar hafa margir lagt hönd á plóg. Fossamyndir og -dagatal Tómasar Guðbjartssonar og félaga voru stórt skref og upp á síðkastið hefur fjöldi greina verið ritaður gegn virkjuninni.
  • Mótmælafundir og baráttusamkomur víða um land til að gera baráttuna sýnilegri.

Baráttan fyrir vernd Drangajökulsvíðerna og gegn Hvalárvirkjun snýst ekki aðeins um þetta eina svæði – hún er mikilvægur vettvangur til að setja fótinn niður gegn úreltri stórvirkjunarstefnu síðustu aldar, til bjargar víðernunum og náttúrunni.

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *