JARÐAKAUP AUÐMANNA

Í dag, fimmtudaginn 8. ágúst heldur ríkisstjórn Íslands fund í Mývatnssveit og mun að honum loknum ræða við fulltrúa sveitarstjórna á Norðausturlandi og síðan halda blaðamannafund.

Að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verður rætt um jarðakaup útlendinga sem mjög hafa verið í umræðunni undanfarið. Líklega hafa auðmenn, útlendir jafnt sem innlendir, lengi gjóað augum á vatnsföll og vatnsréttindi með stórgróða í huga og það er jafnvel að renna upp fyrir forsætisráðherra ef marka má viðtal í aðdraganda þessa Mývatnssveitarfundar.

Í tilefni af þessum fundi er rétt að birta hér lítið og snoturt afsalsbréf til riddarans sjónumglaða, baróns Felix von Longo-Liebenstein sem var búinn að átta sig á þessu löngu á undan ríkisstjórninni. Hann keypti jarðarskika í Árneshreppi sem hefur verið töluvert í fréttum vegna þess að landamerki kotsins voru þanin ótæpilega út í þeim gögnum sem VesturVerk og Árneshreppur lögðu fram til að ná í nægilegt afl fyrir Hvalárvirkjun (nöfn eru afmáð því óþarfi er að persónugera vandann):

Um þessi kaup segir Reynir Traustason í grein á vef Stundarinnar í gær, 7. ágúst (prentvillur lagfærðar):

Ítalskur barón, Felix Von Longo-Liebenstein er sá sem gerði samning við Vesturverk um vatnsréttindin við Eyvindarfjarðarvatn og þar með að þurrka þá gullfallegu Eyvindarfjarðará upp að mestu. Baróninn keypti jörðina Engjanes fyrir 25 milljónir króna á sínum tíma undir þeim formerkjum að hann hefði fest ást á firðinum. Haft er eftir honum að hann ætlaði að byggja sér hús á þessum fagra stað. Í einni ferðinni í Eyvindarfjörð lenti hann í slagviðri og missti áhugann á fegurðinni. Næsta sem heyrist er að hann er búinn að leigja frá sér vatnsréttindin og þar með að eyðileggja fegurðina. Uppreiknaðir fjárhagslegir hagsmunir landeigandans í Ófeigsfirði eru gífurlegir verði virkjunin að veruleika. Longo-Libenstein fær svo sitt líka fyrir að fórna Eyvindarfjarðará þótt reyndar sé grunur um að hann hafi selt það sem hann átti ekki. Þetta er lykilatriði í öllu málinu. Þessir munu græða en landinu blæða. Aðrir munu aðeins fá brauðmola af gnægtarborði auðvaldsins á meðan á fyrirhuguðum framkvæmdum stendur. Síðan tekur við þögnin sem aðeins verður rofin af malinu í túrbínunum í Strandarfjöllum sem nærast á blóði náttúrunnar.

Reynir drepur á margt fleira fróðlegt í greininni sem er hér.

Við bíðum enn eftir húsi barónsins og nú er bitist um vatnið. Þessi viðskipti með land og vatnsréttindi eru bara forsmekkur að því sem getur gerst þegar sálarlaust auðmagn sælist eftir landi til nýtingar og hagnaðar. Í þessu tilviki eru Drangajökulsvíðernin undir og verðmæti þeirra eru allt önnur og meiri en hagnaður HS Orku getur nokkurntíma orðið. Því er það fagnaðarefni að nú sé sérstök kortlagning þeirra hafin eins og fræðast má um hér og hér.

Framundan er harðvítug barátta til varnar landi, náttúru og óbyggðum víðernum því ásælni auðmagnsins fer vaxandi og stjórnvöld hafa steinsofið á verðinum árum saman. Koma verður í veg fyrir að auðmenn sanki að sér landi eins og lausafé væri og ráðskist svo með það eins og þeim sýnist. Eign á landi á að fylgja ábyrgð, gagnvart náttúrunni, landinu og komandi kynslóðum.

Nú ríður á að hætta við meinta Hvalárvirkjun!

– Viðar Hreinsson