SKEMMDARVERK, FÚSK OG BROTTREKSTUR

Nú hefur vegagerð staðið yfir með hléum og eindæmum lungann úr sumrinu. Hún er að flestu leyti ólögleg, hefur í för með sér mikil náttúruspjöll og sýnir einbeittan eyðileggingarvilja VesturVerks/HS Orku. Sennilega vilja þeir og oddviti Árneshrepps sýna vald sitt og reyna að koma því í kring að ekki verði aftur snúið sem er vel þekkt aðferð til að koma vondum virkjanaáformum áleiðis.

Nú hefur Skipulagsstofnun sent Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála greinargerð (sjá Málsgögn) um vegagerðina og verður að segjast að hún fær ekki beinlínis hreinleikavottorð. Augljóst er af plagginu að framkvæmdaleyfi hreppsins þverbrýtur í bága við gildandi skipulag því umfangið er miklu meira en svo að það geti talist eðlilegt viðhald eins og yfirskinið var.

Þessi vegagerð hefur verið hreint skemmdarverk fram að þessu. Strandlínan meðfram veginum, grýtt fjöruborðið þar sem æðarfuglinn flúði undan bílum er stórskemmt. Fínn sandur var tekinn ólöglega úr námu sem opnuð var í botni Ingólfsfjarðar var borinn ofan í veginn án bindiefna. Sú náma hefði átt að fara í umhverfismat því hún felur í sér verulegt rask á sandfjörunni í fjarðarbotninum Það er augljóst að þar sem þessi sandur hefur verið borinn ofaní mun hann skolast burt í vetrarbriminu.

Þessi nýja „efnisnáma“ er harmsaga út af fyrir sig. Að sögn heimamanna eru margar námur tíndar til og staðsettar í hreppnum í fyrstu drögum að aðalskipulagi hreppsins frá 1995 og allt þar til fyrsta útgáfan að aðalskipulagi leit dagsins ljós 2005 en engin þeirra er í Ingólfsfirði.  Í Aðalskipulagi Árneshrepps sem gert var árið 2014, þegar Vesturverk var komið með puttana í skipulagsvinnuna, skýtur allt í einu náma upp kollinum með númerinu ES3 í Ingólfsfirði, staðsett þar við árósinn. Náma með þessu númeri var og er í Reykjarfirði. Hvernig hún gat hoppað yfir þrjá fjallgarða og lent óvart einmitt þar sem VesturVerk þurfti á efni að halda er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Allar slíkar námur eru auðkenndar með númeri. Því geta ekki verið tvær námur með sama númeri í sama sveitarfélagi sem ætti að vera lýðum ljóst þó að oddvitinn og upplýsingafulltrúi VesturVerks hamri stöðugt á því að alltaf sé farið eftir settum reglum. Þegar svo hreppsnefnd gefur út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Ingólfsfirði þá er efnið ekki tekið þar sem náman var þó staðsett í Aðalskipulagi 2014 heldur er rifið upp gróið svæði á nýjum stað fyrir miðjum botni fjarðarins.  Hreppsnefnd og framkvæmdaraðilinn VesturVerk eru því að þverbrjóta skipulagslög, auk þess sem það er augljós fölsun  að merkja efnisnámu inn á skipulagsuppdrátt þar sem aldrei hefur verið náma áður.  

Fúskið ríður því ekki við einteyming og liggur við að bætist í þá sögu daglega.  Allt þetta sýnir fyrst og fremst harðsvíraðan og siðlausan brotavilja hreppsnefndar og framkvæmdaraðila, að valda sem mestu óafturkræfu raski í von um að hægt verði að segja að ekki verði aftur snúið.

Það lítur þó ekki út fyrir að þeim takist að komast yfir Hvalá með nýja brú og ryðjast með veg upp yfir steingervingana/trjáholurnar fyrir haustið. Fyrstu viðbrögð VesturVerks voru að bara væri hægt að krækja fyrir steingervingasvæðið. Það sýnir vel virðingarleysi þeirra fyrir ómetanlegum náttúruminjum og náttúrunni almennt. Steingervingar eru friðaðir með lögum (sjá 2. mgr. 60. gr. náttúruverndarlaga) og þannig hefur það verið frá árinu 2007 og framhjá því verður ekki komist með krókum á virkjanavegum. Þarna er mikið svæði sem einfaldlega þarf að rannsaka vandlega og líklega vernda varanlega og það er langt frá því að vera spurning um ómerkilegan hlykk á vegi.

Nú mætti jafnvel túlka skyndilegt brotthvarf Ásgeirs „top gun“ Margeirssonar úr forstjórastóli HS Orku svo að það sé vegna þessarar löngu harmsögu af yfirgangi, lögleysum og fúski til að koma Hvalárvirkjun í kring.

– Ritstjórn

3 thoughts on “SKEMMDARVERK, FÚSK OG BROTTREKSTUR”

  1. Það vita allir sem vilja vita hverjir skrifa hér það er varla hægt að taka mark á þeim sem halda úti þessari síðu

  2. Þetta er nú meira bullið sem þið skrifið hér en vonandi haldið þið áfram að tala um þetta því það verður þannig að það fólk hættir að nenna að hlusta á þetta bull í ykkur og það verður ykkur að falli. Kv frá Ísafirði

  3. Þvílíkt bull sem hér er skrifað allt í þágu eitthvera aumingja sem þykjast vera eitthverjir nátturuverndasinnar

Comments are closed.