Náttúruverndarsamtökin ÓFEIG hafa sent Náttúrufræðistofnun Íslands bréf um órannsakaða steingervinga á framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar sem stefnt er á að raska varanlega síðar í sumar. Hvergi er minnst á þá í Matsskýrslu VesturVerks og rétt er að ítreka það sem oft hefur komið fram hvílík mistök það voru að setja svæðið í nýtingarflokk Rammaáætlunar því þekking á því var ekki nægileg. Þá verður æ augljósara að framkvæmdaleyfið sem veitt var 12. júní síðastliðinn er reist á afskaplega veikum grunni.
Um er að ræða nokkrar trjáholur í jarðlagi sem brýnt er að rannsaka nánar. Í umsögn 12. ágúst 2016 benti Náttúrufræðistofnun Íslands á að jarðminjar hefðu ekki verið kannaðar og skortur væri á gögnum þar að lútandi. Það hefur nú komið á daginn með áþreifanlegum hætti.
Samkvæmt lögum má ekki raska slíkum jarðminjum. Í bréfi ÓFEIGAR segir:
Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. náttúruverndarlaga er óheimilt að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Ákvæðið kom inn í 40. gr. eldri náttúruverndarlaga nr. 44/1999 með lagabreytingu 2007. Sagði í athugasemd að bætt sé við ákvæðið sérstakri vernd steingervinga, þ.e. að óheimilt verði að nema þá brott af fundarstað nema í þágu rannsókna en nám steingervinga sé óafturkræft og því sé mikilvægt að tryggja varðveislu þeirra. Segir svo að steingervingar hafi einnig mikið vísinda- og fræðslugildi. Ekki má því raska steingervingum og slíkt rask er refsiverð háttsemi skv. 90. gr. náttúruverndarlaga. Ekkert kemur fram er bendir til að kunnugt hafi verið um steingervingana við umrætt umhverfismat og við framangreinda ákvarðanir um skipulag og framkvæmdir. Verði hins vegar af umræddri vegagerð, er ljóst að brot yrði framið gegn 2. mgr. 60. gr. náttúruverndarlaga, en ákvæðið er fortaklaust nema ráðherra hafi veitt undanþágu frá því í þágu jarðfræðirannsókna eða til töku sýna fyrir gestastofur og söfn, að undangengnum umsögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Ekkert bendir til annars en að leyfishafi hyggi á umræddar framkvæmdir svo fljótt sem hann fær því við komið, þrátt fyrir að óafgreidd séu mál er varða annmarka á leyfisveitingunni hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Nokkuð fyrirsjáanlegt er að af því hlytist óafturkræft tjón á steingervingunum, sem eru nærri upphafi fyrirhugaðrar vegarlagningar frá Hvalá og í eða við fyrirhugaða veglínu eins og hún hefur verið dregin upp á korti leyfishafans í umhverfismati hans.
ÓFEIG náttúruvernd fer því fram á það við Náttúrufræðistofnun Íslands að rannsóknir á þessum merku jarðminjum verði hafnar þegar í stað.
Bréf ÓFEIGAR náttúruverndar er í Málsgögnum hér.
– Ritstjórn
Verndum landið okkar…. það sem við eyðileggjum kemur ekki aftur ……
Sjálfsagt er þađ! Strokum ekki út neitt sem hefur þýđíngi fyrir skilníng okkar á fortíđi okkar, eđa þessa lands.