Enn um úrskurð Úrskurðarnefndar

Þegar Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gaf nokkrum íslenskum lífeyrissjóðum (Jarðvarma slhf*) í gegnum HS Orku sem starfar í gegnum VesturVerk grænt ljós fyrir framkvæmdir vegna svokallaðra undirbúningsrannsókna var það á þeirri forsendu að þær yllu ekki  óafturkræfu tjóni: „Með vísan til umfangs og eðlis þeirra framkvæmda sem fram munu fara sumarið 2019 telur úrskurðarnefndin að ekki sé til staðar sú hætta á óafturkræfu tjóni að leiði eigi til stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til efnislegrar meðferðar fyrir nefndinni”. Annars vegar var gengið út frá „Frágangsáætlun“ virkjunaraðila þar sem lýst er ýmsum spaugilegum fyrirheitum um að koma öllu í samt lag, meira að segja koma í veg fyrir að framandi gróður skjóti þar  rótum, hins vegar „Samantekt á framkvæmdum vegna undrbúnings Hvalárvirkjunar 2019-220“ (bæði skjölin eru í Málsgögnum). Hún hefst á einnar blaðsíðu kveinstöfum um tafir á framkvæmdinni en síðan segir að sumarið 2019 standi eftirfarandi til:

  • Viðhald á Þjóðvegi 649, Ófeigsfjarðarvegur að Hvalá í Ófeigsfirði. Viðhaldið byggir á samningi við Vegagerðina og felst í lágmarksframkvæmdum til að hægt sðe að koma bor og vinnubúðum að Hvalá.
  • Brúarsmíði. Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir vinnubúðum norðan Hvalár og því er þörf á að brúa Hvalá. Brúin er á deiliskipulagi. Von er á stálgrindarbrú til landsins frá Bretlandi um mánaðamótin ágúst/september næstkomandi.
  • Vegagerð að og frá brú. Leggja þarf veg að brú yfir Hvalá og síðan brú frá plani fyrir vinnubúðir í ca. 900m fjarlægð.
  • Plan undir vinnubúðir. Í deiliskipulagi er gert ráð fyirr vinnubúðum norðan Hvalár og verður gengið frá plani undir búðirnar í sumar.

 Ráðgert er að ljúka framkvæmdum sumarsins 2019 fyrir lok september.

Sumarið 2020 er fyrirhuguð uppsetning vinnubúða ásamt gerð vegaslóða „í væntanlegu framtíðarvegstæði í Ófeigsfirði“ til að koma bor ásamt aðföngum upp á heiðina, borun í stíflustæðið og jarðgangaleiðirnar og loks rannsóknum á jarðefnum. Úrskurðarnefndin reiknar með að veita úrskurð sinn á vordögum 2020 og veitti sem kunnugt er leyfi til ofangreindra framkvæmda á ábyrgð framkvæmdaraðila (lífeyrissjóðanna, HS Orku og Vesturverks).

Framkvæmdin felst sem sagt í því að leggja veg 600 metra upp með Hvalá að sunnan, setja þar stálgrindarbrúna, leggja síðan veg 300 metra í viðbót að 5,8 hektara iðnaðarsvæði sem kallað er vinnubúðir. Loks er reiknað með 7000 rúmmetra efnistöku. Það er útilokað annað en að þessi framkvæmd valdi óafturkræfu tjóni. Þetta sést vel á mynd sem deilt var á Facebook síðunni Hvalá í morgun:

https://tinyurl.com/y5pt2sq6

Verklýsingin í úrskurðinum er svohljóðandi:

„Hin kærðu leyfi taka til undirbúningsframkvæmda vegna rannsókna en ekki til virkjunarinnar sjálfrar. Hefur úrskurðarnefndin aflað nánari upplýsinga frá leyfishafa um framkvæmdatíma. Samkvæmt þeim stendur til að sumarið 2019 fari fram viðhald á þjóðvegi 649, Ófeigsfjarðar­vegi að Hvalá í Ófeigsfirði. Viðhaldið byggist á samningi við Vegagerðina og felist í lágmarks­framkvæmdum til að hægt sé að koma bor og vinnubúðum að Hvalá. Sett verði upp stálgrindarbrú yfir Hvalá og vegur lagður að brú sunnan megin árinnar og frá brú að fyrir­huguðum byggingarreit vinnubúða norðan megin. Samtals verða veghlutarnir 900 m langir. Undirbúið verður plan undir vinnubúðirnar, en samkvæmt deiliskipulagi er markaður 5,8 ha byggingarreitur fyrir tímabundnar vinnubúðir norðan við Hvalá. Fyrir liggur að fyrirhuguð stálbrú yfir Hvalá verði 22 m að lengd og 6 m að breidd, steypt burðarvirki verði staðsett á bökkum árinnar þannig að það hafi ekki áhrif á rennsli hennar. Þar sem um afmarkaðar framkvæmdir er að ræða sumarið 2019 verður efnistaka í lágmarki, en samkvæmt upplýsingum leyfishafa verður hún að hámarki 7.000 m3 og efni eingöngu tekið úr námu ES18 við Hvalárósa og opinni námu við Urðir. Sú fyrrnefnda er ný náma en sú síðari hefur verið notuð um skeið. Sumarið 2019 verður ekki tekið efni úr öðrum þeim námum sem deiliskipulag tekur til, ES19 við Neðra-Hvalárvatn og ES20 á eyri í Hvalá. Í gögnum málsins er að finna frágangsáætlun vegna vegagerðar og efnistökustaða. Kemur þar fram að ef rannsóknir og aðrar hugsanlegar ástæður sýni að ekki sé ákjósanlegt að reisa virkjun á svæðinu þá þurfi að vera hægt að fjarlægja vegi og önnur verksummerki án mikillar röskunar.“

* Sjóðir í stærðarröð eignarhalds í Jarðvarma: Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Festa, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stapi, Lífsverk, Eftirlaunasjóður flugmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans og Lífeyrissjóður bænda.

– Ritstjórn, síðast breytt kl 12:10 23/07/2019