Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra lét loks í sér heyra í tíufréttum 23. júlí og deildi síðan þeirri frétt á Facebook daginn eftir. https://www.facebook.com/UmhverfisMummi/
Enginn efast um hug hans til virkjunarinnar og sjáfsagt öfunda hann ekki margir af stöðunni. Hann hefur varla stjórnskipulegt vald til að stöðva framkvæmdirnar eins og málin standa en staðan er óljós um friðunarhugmyndirnar sem settar voru fram í fyrra og gefst vonandi tóm til að leita þær uppi á næstu dögum.
Hvað sem því líður bendir hann á að ætlaðar framkvæmdir þessa árs og næsta séu einungis til rannsókna og að Orkustofnun hafi ekki einu sinni veitt leyfi til að virkja. Það ætti „að vera hægt að stunda þessar rannsóknir án vegagerðar upp á heiðina” segir hann og skorar á framkvæmdaraðila að endurskoða áætlanir sínar. HS Orka hrökk ekki langt undan tilmælum hans en orð ráðherrans afhjúpa í það minnsta brotavilja virkjunarmanna, hið gamalkunna en leynda markmið að skemma sem mest svo ekki verði aftur snúið. Það er nefnilega vel hægt að gera þessar rannsóknir með miklu minna raski.
Stjórnkerfið hefur frá upphafi verið veikburða gagnvart yfirgangi virkjunarliðsins sem sótt hefur fram með umhverfishryðjuverk sín á mörgum vígstöðvum þannig að heildarsýn er í raun engin í kerfinu.
Það hlýtur þó að vera hægt, ef stjórnvöld vilja, að herða allt eftirlit og eftirfylgni. Hér er til að mynda ein kerfisþversögn á milli Minjastofnunar og Úrskurðarnefndarinnar:
Úrskurðarnefndin hafnaði því að stöðva framkvæmdir vegna rannsókna og því telur VesturVerk sér heimilt að ráðast í vegavinnu úr Ingólfsfirði og allt upp að vinnubúðum við Hvalá (sjá hér: http://hvala.is/framkvaemdasvaedi-hvalarvirkjunar-med-merkingum/)
Í bréfi Minjastofnunar stendur hins vegar (bls. 7, smávægileg pennaglöp leiðrétt):
Fornleifaskráning frá 2017 vegna fyrirhugaðrar nýrrar veglínu nær ekki lengra en að bæjarstæði Ófeigsfjarðar. Þar sem vegur liggur nú frá Ófeigsfirði, yfir Húsá og að Hvalsá þarf að uppfæra fornleifaskráningu frá 2002 og 2003 og mæla allar minjar nákvæmlega upp. Ganga þarf línuna og bæta við skráningu hafi fleiri minjastaðir fallið undir friðunarákvæði vegna aldurs eða ef finnast áður óskráðar minjar. Ekki er hægt að fara í framkvæmdir á þessum hluta vegarins fyrr en fornleifaskráning hefur verið send Minjastofnun Íslands ásamt öllum gögnum, hún staðfest og Minjastofnun fjallað um hugsanlegar mótvægisaðgerðir.
Stjórnvöld hljóta að geta fylgt þessu eftir og stöðvað vegagerðina á Ófeigsfjarðarhlaði ef þessari skráningu er ekki lokið.
– Ritstjórn