Ný grein: TOP GUN grætur höglum

Viðar Hreinsson:

Undanfarna daga hafa birst kynlegar fréttir um yfirvofandi orkuskort. Sú umræða er ágætt dæmi um sambland kranablaðamennsku og keyptrar kynningar og tímasetningin er gagnsæ, þetta er samræmt átak til að spilla fyrir kærum vegna Hvalárvirkjunar. Forstjóri HS Orku prýðir forsíðu „kynningarblaðs“ (= keyptrar auglýsingar) sem fylgir Fréttablaðinu í dag, á vegum fjögurra fyrirtækja: HS orku, Landsnets, Eflu og EM Orku). Forstjórinn grætur stórum höglum yfir þessum voðalegu kærum sem geta spillt fyrir framkvæmdum. ÞESSAR KÆRULEIÐIR ERU MIKILVÆGUR ALMANNARÉTTUR GEGN OFURVALDI STÓRFYRIRTÆKJA SEM LÁTA LÍTA ÚT FYRIR AÐ ALLT SEM ÞAU GERA SÉ SJÁLFKRAFA ALMANNAHAGUR!

Hagsmunir forstjórans og HS Orku eru augljósir en hann minnist ekki á tengsl fyrirtækisins við Hvalárvirkjun (HS Orka á 74% í VesturVerki). Því hef ég klippt hér niður búta úr grein sem ég skrifaði nýlega og er aðgengileg hér á þessum vef. Ég bætti líka við tilvitnun í viðtal við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Þá má minna á að Landvernd hefur svolítið annað sjónarhorn eins og sjá má hér. Lykilatriði er að sjálfsögðu umfang stórnotkunar og LYKILSPURNINGIN ER ÞESSI: VILJA LANDSMENN AÐ ÓSNORTNUM VÍÐERNUM SÉ FÓRNAÐ FYRIR KÍSILVER OG GAGNAVER ERLENDRA STÓRFYRIRTÆKJA? (Bitcoin er uppáhaldsgjaldmiðill skipulagðrar glæpastarfsemi á borð við mansal). Því verður að spyrja, hvern mun skorta orku? Stjórnvöld hafa verið grátlega stefnulaus til þessa en ekki er mark takandi á samræmdum grátkór hagsmunaaðila heldur verður að ljúka við vitræna orkustefnu í ljósi umhverfisvanda heimsins.

3.  „Top gun“: Í stefnuleysi markaðshyggjunnar reið yfir einkavæðingarbylgja á sviði orkumála sem varð til þess að Hitaveita Suðurnesja lenti í höndum erlendra auðhringa í kringum bankahrun. Þar var Ross Beaty innsti koppur í búri, í Magma Energy, Alterra, Innergex og hvað þau hétu öll grænslikjufyrirtækin hans sem áttu meirihluta í HS Orku. Hluturinn var á dögunum seldur með gríðarhagnaði. Næsti eigandi er samlagsfélag 14 lífeyrissjóða sem sló sér saman með bresku fyrirtæki og eiga þau nú orkufyrirtækið til helminga. Íslandsáratugurinn hefur fært Ross Beaty nægan gróða og hverfur hann nú úr stjórn HS Orku og snýr sér að raunverulegum gullgreftri.

Hvalárvirkjun sem er fyrirhuguð á Drangajökulsvíðernum er í höndum HS Orku sem fer með þá framkvæmd í gegnum ráðandi hlut í litlu vestfirsku skúffufyrirtæki sem það hefur gleypt á liðnum fimm árum og eignast að mestu leyti með því að dæla hundruðum milljóna í rannsóknir og annað sem tengist því að koma viðskiptahugmyndinni í gegn. Hér innanlands er því enn mjög haldið á lofti að sú virkjun eigi að bjarga byggð í Árneshreppi og raforkuvanda Vestfirðinga. Það bar þó lítið á þeim björgunaraðgerðum á fundum eigendanna. Þar er forstjóri HS Orku kallaður „our top gun in Iceland“ og umræðan snýst um sölu á orku til gagna- og kísilvera, jafnvel sölu um sæstreng þegar fram líða stundir. Það er reyndar ekki aðeins Hvalárvirkjun sem er í sigtinu heldur einnig Skúfnavatnavirkjun eins og kom fram hjá Paul Rapp, yfirmanni hjá Alterra fyrrum eiganda HS Orku, á fjárfestafundi 13. maí 2015:

Fyrst þarna efst [á glærunni] það lítur út eins og Hvalá, það er borið fram kavalo og þar er 55 megawatta, býsna stór eign sem við erum að vinna með í fyrirtæki sem heitir [Vesturverk] þar sem við förum nú með 58% eignarhlut og kannski jafnvel meira þegar við þróum þetta verkefni áfram … og ég vil líka tilkynna að Hvalársvæðið efst og þá á næstu glæru Skúfnavatnavirkjun, neðst á glærunni, bæði eru rétt búin að fá rannsóknaleyfi, þær komust báðar í gegnum kærufrestinn, svo við einbeitum okkur á fullu að báðum þessum verkefnum. [First up at the top, it looks like it’s a Hvalá, its pronounced kavalo and there is a 55 megawatt, a pretty sizeable hydro asset that we’re working on in a company called [Vesturverk] where currently we project 58% ownership and perhaps even greater as we develop this project further… and also I want to announce that the Hvalá site above and then on the next slide Skúfnavatnavirkjun, at the bottom of the slide, both just received their research permits, they both passed through their appeals period, so we’re fully engaged to go on both of these projects. (Paul Rapp, Head of Geothermal Operation, Alterra, 13. maí 2015)] Ef slegið er inn „HS Orka“ í leitarstreng á þessari síðu fæst listi yfir þessa fundi.

Hvalárvirkjun er aðeins liður í blautum hagnaðar- vaxtar- og sæstrengsdraumum. Á fundum eigenda HS Orku tók oft til máls fyrrum stjórnarmaður í HS Orku, John Carson, þá framkvæmdastjóri Alterra:

„Neðst á vatnsorkutöflunni er nýtt verkefni, Hvalá, það er 55 megawatta vatnsorkumöguleiki á Íslandi sem við erum mjög spenntir yfir […] ég er mjög spenntur fyrir þessu tímabili í vexti fyrirtækisins, það er verulegur vöxtur og við munum  sjá hvaða áhugaverðu ækifæri bíða okkar seinna á þessu ári […] útlitið á orkumarkaði á Íslandi er sterkt. Svo ég get sagt ykkur að tækifærin sem við erum að skoða þarna á Íslandi fyrir nýjar og frekari fjárfestingar eru yfirleitt hagnaðartækifæri í tveggja stafa tölum. Það eru ekki aðeins gagnaver, það er líka annar iðnaður auk álvera fyrir utan gagnaver sem við horfum á […] Þið vitið kannski líka að tilraunir eru í gangi til að setja upp eða koma fyrir flutningsstreng sem mundi taka íslenska orku, endurnýjanlega orku yfir á meginland Evrópu og eða Bretlands (John Carson 25. mars 2015) Það er greinilega seljendamarkaður núna, merkilegt síðustu 5 árin eða svo og það er mikil eftirspurn eftir orku […] við reiknum með að það haldi áfram, aðaleftirspurninn á markaðinum nú er frá sílikoniðnaðinum. Tvö af þessum verkefnum eru þegar í byggingu og komin nærri framleiðslu og tvö eru enn á þróunarstigi. Og þá eru gagnaverin  að auka orkuþörfina, en á smærri skala. Sílikonverkefnin eru eitthvað um 40, 50, upp í 70, 80 megawött hvert. Gagnaverin eru 10, 20 hvert og vaxa síðan smátt tog smátt.” (John Carson 10. ágúst 2017) [Down toward the bottom of the hydro chart, there is a new project there Hvala, it’s at 55 megawatt hydro opportunity in Iceland that we’re very excited about. […] I’m very excited about this period in our company’s growth, it’s very substantial growth and we will see what interesting opportunities await us later this year. […] the power market outlook in Iceland is strong. So I would tell you that the opportunities that we’re looking at there in Iceland for new and further investments are generally double digit return opportunities. […]. It’s not just server farms, it’s also other industries besides aluminum besides the server farms which we’re seeing them. […] You maybe also aware that there is an effort underway to establish or put into place a transmission line that would take Icelandic power, renewable power over to the European mainland and/or the UK. […](John Carson, stjórnarmaður í HS Orku og framkvæmdastjóri Alterra, 25. mars 2015)  

It’s actually clearly a seller’s market now that stands, remarkably over the last 5 years or so and there is a lot of demand for power. […] we expect that to continue the main demand product in the market now is for silica industries. Two of those projects have already started construction by getting close to commissioning and two of those are still in the development phase. And then the data centers are pacing up a bit more power, but on a smaller scale. The silica projects are something like 40, 50 up to 70, 80 megawatts each. Data sectors are 10, 20 each and then grow gradually. (John Carson, 10. ágúst 2017, skömmu áður en Alterra rann inní Inngergex)].

HS Orka fékk yfirráð yfir VesturVerki árið 2015 og fyrirtækið virðist ekki þjóna öðru hlutverki en vera falskt flagg stóreigendanna, andlit verkefnisins gagnvart íbúum Árneshrepps og Vestfirðingum en með óveruleg útgjöld á rekstrarreikningi (heilar 100.000 kr. í rekstrargjöld árið 2017). Upphaflegir stofnendur og eigendur fyrirtækisins eiga nú ekki nema 26% hlut í því, HS Orka á 74%: „HS Orka hefur enn fremur unnið að þróun annarra verkefna. Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (um 14 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að. Á HS Orka nú um 74% eignarhlut í VesturVerki.“(sjá hér) Þetta þýðir að allur þróunarkostnaður er eignfærður hjá HS Orku og eignarhlutur stofnenda hefur smám saman fjarað út, rétt eins og umhyggja VesturVerks fyrir raforkuöryggi Vestfjarða sem greinilega skilaði sér ekki inn á fundi stórlaxanna. Í raun og veru var eina eign VesturVerks frá upphafi 2013-stimpillinn frá rammaáætlun 2 sem byggður var á mistökum.

9. „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum? Af framansögðu er ljóst að saga draumsins um Hvalárvirkjun er saga vanþekkingar, mistaka, villandi upplýsinga og rangfærslna, fúsks, siðleysis, stefnuleysis og skipulagsleysis sem helst minnir á harmsöguna af kísilverinu í Keflavík, United Silicon.

Orkumál Vestfjarða eru fyrst og fremst spurningar um tengingar. Næg orka er í landinu og hægt að nýta hana miklu betur (sjá t.d. viðtal við Bjarna Bjarnason í Mbl. 16. október 2017: „Bjarni er ekki á þeirri skoðun að orku­skort­ur sé yf­ir­vof­andi í land­inu eins og ýms­ir hafi talað um. Hann seg­ir ým­is­legt tínt til í þeirri umræðu sem eigi hrein­lega ekki við rök að styðjast.”  hér). Nú þykir mörgum að vindmyllugarðar séu að verða fýsileg leið til orkuöflunar, eigi á annað borð að framleiða meira rafmagn, sem ekki er sjálfgefið. Því er augljóst að HS Orka og upplýsingafulltrúi VesturVerks þurfa að berjast við vindmyllur, vilji þeir þoka Hvalárvirkjun áleiðis.

Nú ríður á að stjórnvöld greini raunverulegar þarfir, myndi yfirsýn yfir valkosti um orkuvinnslu og -flutning og geri raunhæfar langtímaáætlanir með umhverfi og almannahag að leiðarljósi. Langtímablautir draumar einkarekinna orkufyrirtækja eru alltaf þeirra eigin gróðahagsmunir og ekkert annað. Það er óhugsandi að bankar, fjárfestar og lífeyrissjóðir sem vilja sýna snefil af samfélagsábyrgð liðsinni svona verkefni á nokkurn hátt nú þegar allir þurfa að sýna ábyrgð og leggjast á árar með framtíðinni. Vilja lífeyrissjóðirnir sem keypt hafa HS Orku að forstjórinn verði áfram þeirra „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum?

Byggð í Árneshreppi er ómælanlega verðmæt fyrir íslenskt samfélag og menningu. Útilokað er að Hvalárvirkjun tryggi á nokkurn hátt framhald þeirrar búsetu (Ég hef fjallað um þá hlið málsins í tveim greinum á síðastliðnum tveim árum, hér og hér). Eina hugsanlega leiðin er samgöngubætur og markviss stuðningur við þá atvinnustarfsemi sem sprettur úr jarðvegi sveitarinnar og færi vel saman við stofnun þjóðgarðs í kjölfar ákvörðunar um verndun víðernanna. Samtökin ÓFEIG létu gera vandaða skýrslu um fýsileika þess að vernda víðernin nyrðra og væri nær fyrir hreppsnefndina að ganga til samstarfs við alla þá sem vildu liðsinna við slíkt verkefni frekar en að láta fjárgróðamenn fjarstýra sér. Skýrsluna má nálgast hér:

Ekki er laust við að greina megi örvæntingartón í virkjunarfólki. Feigðarflanið verður æ augljósara og flumbrugangurinn gerir það að verkum að kæruleiðir eru til gegn framkvæmdinni. Þess vegna verður að koma í veg fyrir að rokið verði í framkvæmdir vegna rannsókna í sumar, því þeim fylgja mikil óafturkræf spjöll þó að Skipulagsstofnun hafi ekki komið auga á þau og haldi að hægt sé að púsla saman sprengdum klettabeltum. Drangajökulsvíðernum má ekki fórna á altari bitcoin og gagnavera. Það væri meinleg kaldhæðni örlaganna ef það gerðist þegar flokkur sem kallar sig grænan heldur um stjórnartaumana, bæði í forsætisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Nú ríður á að Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson sýni til hvers flokkur þeirra situr í ríkisstjórn

Markaðslausnir, hagnaður og arðbærni hafa verið æðstu boðorð samfélagsins undanfarna áratugi og umhverfið gleymdist. Nú þarf að snúa við blaðinu og samstilla vellíðan manna, náttúru og umhverfis. Það verður aðeins gert með því að halda í heiðri þá fjölbreytni sem er undirstaða lífríkis og menningar. Lausnin felst í því að taka völdin af einsleitum og voldugum gróðaöflum og dreifa valdinu í samfélaginu með því að þróa lýðræðið. Það er við hæfi að ljúka þessu með orðum skáldsins og sjáandans Elísabetar Jökulsdóttur: FRAMTÍÐIN FYLGIST MEÐ OKKUR!

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um menningu og náttúru Stranda

1 thought on “Ný grein: TOP GUN grætur höglum”

  1. Pingback: SKEMMDARVERK, FÚSK OG BROTTREKSTUR – HVALÁ

Comments are closed.