Innsend grein: Reður eða séra reður

Elísabet Kristín Jökulsdóttir

REÐUR EÐA SÉRA REÐUR

Í Morgunblaðinu 20. júní er frétt um reðurtáknin og nöfnin, umhverfisskemmdir, sem unnar voru nýlega á Helgafelli í Hafnarfirði, sem nota bene er vinsælt fjall höfuðborgarbúa. Fólk hefur ást á þessu fjalli sem er eitt af hinum mörgu Helgafellum Íslands. Fólk nær ekki uppí nefið á sér á sumum samfélagsmiðlum og comment sá ég um að helst ætti að drepa þessa menn eða setja í ævilangt fangelsi. 

Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar lítur athæfið mjög alvarlegum augum. Þeir sem hafa teiknað eða greypt myndir í fjallið eru kallaðar skemmdarvargar. Málið kært til lögreglunnar. Síðan segir Björn: “Það má segja að það sé til folk sem fer sínu fram og virðist ekki skammast sín fyrir það heldur gerir í að markaðssetja sjálft sig sem einstaklinga og jafnvel setja mark sitt á náttúruna með þessum hætti.” Talað er um sektargreiðslur “þar sem það brjóti reglurnar að vekja athygli.”

Gott og vel. 

En ég spyr: Hvað með öll reðurtákn Landsvirkjunar, Landsnets, Ríkisstjórna undanfarinna áratuga og sérstaklega síðustu ára, þar sem lög eru brotin og böðlast er áfram við virkjanir án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla komi til. Þessi stórfyrirtæki og ríkisstjórnir fara sínu fram og “virðast ekki skammast sín fyrir”. Venjulegt fólk er í kvíða út af þessum málum. En það er ekki tekið mark á tilfinningum, það er alltaf gert grin að tilfinningum og ást á Íslandi. 

Og hvaða reðurtákn er ég að tala um: Eldvörpin, Árnar í Skagafirði, Kárahnjúkavirkjun, Bakka á Húsavík, Helguvík, allar þessar smávirkjanir sem spretta upp einsog gorkúlur, og nú síðast Hvalárvirkjun. 

Færustu náttúruvísindamenn hafa fordæmt þetta, skrifað lærðar greinar, Skipulagsstofnun er lögð reglulega niður þegar þarf að vinna skemmdarverkin. 
Erlend stórfyrirtæki kalla Ísland “Potienal Assad for Sale”. 

Enginn ráðamaður hefur dug í sér eða sjálfsvirðingu til að mótmæla því. 
Ég endurtek: Enginn ráðamaður hefur sjálfsvirðingu til að mótmæla eða gera athugasemdir við orð stjórnarformanns kanadíska fyrirtækisins sem hefur tögl og haldir í Hvalárvirkjun. 

 En það sem þessir men sem krota á Helgafell, teikna getnaðarlimi, typpi, reðurtákn, þeir leysa eitt úr læðingi, þeir sýna okkur fram á eitt: Að ríkisstjórnin, ráðherrar, sveitastjórnir, (heilu fjöllin eru mokuð niður einsog Ingólfsfjall) öll þessi orkufyrirtæki útlensk og íslensk, eru líka skemmdarvargar sem kunna ekki að skammast sín.  

Að allt þetta virkjanabrjálæði, rafmagnsörvæntingin, lögleysan, yfirgangurinn, viðhorfin til náttúrunnar, spillingin, ummælin sem þeir leyfa sér, … 

sýnir að þeir eru sama stað og þeir sem krotuðu á fjallið. 

Það  er einsog þeir hafi engan lim nema þann sem krotaður er á fjallið, eða á að merkja í Ófeigsfjarðarheiði. 

Takk fyrir að sýna okkur það!!

Já, það er ekki sama hvort það sé reður eða séra reður. 

Finnst þér lesandi góður þetta bera vitni um reisn? 

En þessi skemmdarverk sýna, svo ekki verður um villst, að við höfum ást á fjöllum.

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *