„Ég er algjörlega mótfallinn þessari virkjanahugmynd. Og verð sífellt ákveðnari í því að þetta sé ekki farsæl lausn fyrir þetta samfélag og ekki fjórðunginn heldur.“
Þetta segir Valgeir Benediktsson, sem býr að bænum Árnesi II í Árneshreppi á Ströndum. Þarna er hann að tala um Hvalárvirkjun sem fyrirtækið Vesturverk á Ísafirði áformar að reisa í Ófeigsfirði. Valgeir er alinn upp í hreppnum. Hann fór suður, eins og hann orðar það, í fjórtán ár, en hefur nú búið í Árneshreppi samfleytt í yfir þrjátíu ár. Valgeir kom á fót byggðasafninu Kört við heimili sitt fyrir nokkrum árum. Safnið er kennt við samnefnt sker í Trékyllisvíkinni. Þannig kallast safnið og skerið á yfir sjóinn.
Úr grein Sunnu Óskar Logadóttur hjá mbl.is, sem birtist þann 15. október 2017: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/15/engin_glora_i_hvalarvirkjun/