Athugasemdir vegna úrskurðar úrskurðarnefndar

Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur hafnað kröfum kærenda í sex kærumálum um stöðvun framkvæmda vegna Hvalárvirkjunar á meðan úrskurðað er í málunum. Þó má telja þetta áfangasigur í baráttunni. Forsendur úrskurðarins eru þær að ekki verði hægt  að vinna slík óafturkræf umhverfisspjöll með þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á þessu ári að ástæða sé til að stöðva þær. Tekið er sérstaklega fram að „leyfishafi“, þ.e. VesturVerk/HS Orka beri alla áhættu af „því að hefja framkvæmdir á grundvelli hinna kærðu leyfa á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um  lögmæti þeirra.“

Hér er hlekkur á úrskurð nefndarinnar: https://uua.is/urleits/485155596465-2019-hvalarvirkjun/?fbclid=IwAR1jdxJ1_23Q0qObJriQC8Cbu-QTK7kFidXTmUnlUkggEruxMy08RPbyjl8

Hafa þarf í huga að þetta er bráðabirgðaúrskurður. Engum kærum var vísað frá eins og VesturVerk/HS Orka krafðist. Nefndin á eftir að skera efnislega úr um allar kærurnar og er vandséð hvernig hægt verði að vísa frá kærum lögmætra landeigenda og náttúruverndarsamtaka.

Til þess að auka lítilsháttar á hausverk VesturVerks/HS Orku barst í gær umsögn frá Minjastofnun sem byggir á upphafi hins skipulagða undanhalds virkjunaraðila. Minjastofnun tók undir með Eyrarfólki að öllu leyti og mælir fyrir margvíslega um þessa vegagerð, m.a. um  framkvæmdir á vegi í  gegnum verksmiðjuna verði ekki nema með skilmálum sem tilkynntir séu fyrirfram, Eyrará verður ekki raskað og ekki verður farið lengra með vegarframkvæmdir en að bænum Ófeigsfirði.

Vissulega veldur það vonbrigðum að áform Vesturverks/HS Orku á þessu ári hafi ekki verið stöðvuð því þar er um veruleg  spjöll að ræða. Virkjunaraðilar fá að taka 3500 rúmmetra af möl og sandi úr ósum Hvalár og skella stálgrindabrú yfir ána. Því er ályktun úrskurðarnefndarinnar einfaldlega röng hvað þetta varðar vegna  þess að þetta eru óafturkræf skemmdarverk. Sama á við um veg upp að vinnubúðum norðan árinnar en takist VesturVerki að leggja hann í sumar eða haust verða unnar verulegar skemmdir á gönguleiðinni að fossinum Drynjanda verulega spillt, þó að í úrskurðinum segi að engum óbyggðum víðernum verði spillt.

Baráttan heldur áfram en gott að hafa það staðfest að framkvæmdaraðilarnir munu nú böðlast  áfram á eigin ábyrgð.

Umsögn minjastofnunnar er að finna í málsgögnum: http://hvala.is/malsgogn

– Ritstjórn