Athugasemd við grein upplýsingafulltrúa VesturVerks í Fréttablaðinu 18. júlí

Viðar Hreinsson skrifar:

Stjórnendur og talsmenn stórfyrirtækja á hlutabréfamarkaði (eða smáfyrirtækja sem stórfyrirtækin beita fyrir sig) fara aðeins eftir einu boðorði, að auka hagnað eigendanna. Því eru orð þeirra í opinberri umræðu um almannahag marklaus því þau miðast aðeins við hagsmuni eigenda þó að jafnan sé reynt að láta líta svo út að allt sé í þágu almennings. Þess þá heldur þegar þeir segja ekki deili á sér. Þegar boðorðið er aðeins eitt er lítið skeytt um greinarmun á sannleika og lygi.

Birna Lárusdóttir, sem skrifar greinina „Allt í uppnámi?“ í Fréttablaðið í dag, er „upplýsingafulltrúi“ VesturVerks sem hyggst virkja Hvalá en yfirráð fyrirtækisins eru hjá HS Orku sem lengi var stjórnað af Ross Beaty en nú hafa nokkrir lífeyrissjóðir keypt HS Orku í félagi við breskt fyrirtæki. Upplýsingafulltrúinn lætur að því liggja að Rammáætlun sé í hættu vegna baráttunnar gegn Hvalárvirkjun. Það er rangt. Reyndar voru það mistök upphaflega að setja Hvalá í nýtingarflokk en aðalatriðið er að Rammaáætlun er ekki áætlun um framkvæmdir eins og ætla mætti af skrifum Birnu.  Hún flokkar bara hvað þarf að friðlýsa og hvað þarf að athuga og hvað má rannsaka, og þá er eftir allt ferlið með umhverfismati og skipulagsmálum. Skipulagsstofnun mat umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar fjórum árum seinna verulega neikvæð að flestu leyti. Engu að síður héldu hreppsnefnd Árneshrepps og HS Orka/VesturVerk áfram með málið sem þó er mjög umdeilt í þessu fámenna sveitarfélagi. Upplýsingafulltrúinn talar um „skæðadrífu órökstuddra fullyrðinga og aðdróttana sem ítrekað er vitnað til sem algildra sanninda með tilheyrandi tilfinningahita“ og þetta verði „seint talinn farsæll farvegur fyrir skoðanaskipti.“ Það er hins vegar svo að barist hefur verið gegn þessari framkvæmd í gegnum allt ferlið og athugasemdir gerðar án árangurs.   Í síðasta mánuði var fyrst möguleiki á að kæra framkvæmdaleyfi til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kveinkar Birna sér undan leikreglum lýðræðisins?
Er „skæðadrífuna“ sem á vesalings upplýsingafulltrúanum hefur dunið að finna í kærunum, í kommentakerfum eða er hana kannski að finna í rökstuddum greinum hér á vefnum http://hvala.is/ sem unninn er í sjálfboðavinnu nokkurra umhverfisverndarsinna? Á þessum vef er meðal annars grein þar sem saga Hvalárvirkjunar er rakin nokkuð ítarlega. Upplýsingafulltrúinn hefur hvergi hrakið neitt sem þar stendur enda er greinin vel studd með tilvísunum til heimilda og gagna.

Barátta fyrir náttúruvernd er, eins og upplýsingafulltrúinn getur sér kannski til um, að mestu leyti unnin í sjálfboðavinnu og án eigin hagsmuna eða fjárhagslegrar hagsmunagæslu en fróðlegt væri ef upplýsingafulltrúinn upplýsti um starfshlutfall sitt hjá VesturVerki/HS Orku og jafnvel laun. Baráttan fyrir umhverfisvernd hefur jafnan verið háð gegn fjársterkum fyrirtækjum sem ausið hafa ómældum fjárhæðum í áróður og lögfræðiaðstoð.

Til að skýra samhengið varðandi Rammáætlun og hagsmuni VesturVerks og HS Orku eru hér tveir kaflar úr fyrrnefndri grein:

4. Raforka fyrir Vestfirðinga? Rétt er að rifja upp forsögu þessara funda þar sem glaðbeittir fundarmenn voru alveg ómeðvitaðir um raforkuvanda á Vestfjörðum. Fyrirtækið VesturVerk varð til með kaupum á bolvísku félagi árið 2005 og starfaði í þrjú ár á sviði ráðgjafar við skipasmíðar. Starfseminni var breytt í orkuframleiðslu árið 2008. Félagið hefur ekki framleitt neina orku svo vitað sé en var í eigu vestfirskra (hugsjóna-) og athafnamanna sem vildu leysa raforkuvanda Vestfjarða. Það beindi sjónum að Hvalá í Ófeigsfirði og samdi við eigendur tveggja jarða um að rannsaka, og ef af yrði, nýta afl þriggja vatnsfalla. Í júní árið 2011 afhenti verkefnisstjórn rammaáætlunar iðnaðarráðherra fyrstu flokkun virkjanahugmynda í samræmi við erindisbréf sitt. Ein þeirra var 35 megawatta virkjun Hvalár með tengingu beint til Ísafjarðar. Sagt var að rannsóknarleyfi hefði þegar verið gefið út. Verkefnisstjórn lagði til við ráðherra að hugmyndin færi í nýtingarflokk. Ekkert af þessu stóðst; VesturVerk sagði rangt til um að rannsóknarleyfi væri fengið (það veitti Orkustofnun að hluta 31. mars 2015) og tenging til Ísafjarðar reyndist óraunhæf enda var hún ókönnuð og er enn. Virkjunin var talin óraunhæfur kostur vegna gríðarlegs tengikostnaðar en langur vegur er til allra tengikosta. Verkefnisstjórnin var þó alls ekki sammála um flokkunina. Fimm nefndarmenn vildu nefnilega setja kostinn í biðflokk á meðan meirihlutinn, sjö, vildu setja hann í nýtingarflokk. Óhætt er að fullyrða að niðurstaðan hafi verið mistök því upplýsingar voru af skornum skammti. Gögnin voru í besta falli sæmileg og forsendur fyrir mati á náttúru- og menningarþáttum voru einfaldlega ekki fullnægjandi fyrir raunhæft mat. Því hefði virkjunin átt að fara í biðflokk. Alþingi samþykkti þingsályktun 14. janúar 2013 þar sem virkjanahugmynd þess tíma fór í nýtingarflokk. Þar með hafði Alþingi skapað vestfirsku athafnamönnunum sem farið höfðu af stað fimm árum áður fyrirtaks söluvöru enda seldu þeir HS Orku hugmyndina og smám saman varð skúffufyrirtækið VesturVerk til.

Síðan hefur eiginlega allt breyst. HS Orka fékk yfirráð yfir VesturVerki árið 2015 og fyrirtækið virðist ekki þjóna öðru hlutverki en vera falskt flagg stóreigendanna, andlit verkefnisins gagnvart íbúum Árneshrepps og Vestfirðingum en með óveruleg útgjöld á rekstrarreikningi (heilar 100.000 kr. í rekstrargjöld árið 2017). Upphaflegir stofnendur og eigendur fyrirtækisins eiga nú ekki nema 26% hlut í því, HS Orka á 74%: „HS Orka hefur enn fremur unnið að þróun annarra verkefna. Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (um 14 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að. Á HS Orka nú um 74% eignarhlut í VesturVerki.“(sjá hér) Þetta þýðir að allur þróunarkostnaður er eignfærður hjá HS Orku og eignarhlutur stofnenda hefur smám saman fjarað út, rétt eins og umhyggja VesturVerks fyrir raforkuöryggi Vestfjarða sem greinilega skilaði sér ekki inn á fundi stórlaxanna. Í raun og veru var eina eign VesturVerks frá upphafi 2013-stimpillinn frá rammaáætlun 2 sem byggður var á mistökum.

Ný virkjunarhugmynd kom fram 2015. Hún er um margt ólík hinni upphaflegu að gerð með meira afl, 55 megawött í stað 35 og aukin orka krefst mun viðameiri og dýrari raflagna. Hún gerir ekki ráð fyrir tengingu til Ísafjarðar. Hún á að framleiða raforku þegar eftirspurn er mest, vera eins konar birgðastöð fyrir fyrirtæki sem annars framleiðir raforku með gufuafli. Viðskiptahugmynd HS Orku er einfaldlega 55 megawatta toppaflsstöð til að þjóna gagna- og kísilverum í viðskiptum við fyrirtækið á hverjum tíma. Tenging til Ísafjarðar er ekki raunhæf. Engin störf fylgja þessari hugmynd á Ströndum eða Vestfjörðum svo vitað sé nema kannski skrifstofustarf á Ísafirði. Því eru allar forsendur breyttar og mjög vafasamt að flokkun í nýtingarflokk rammaáætlunar 2 eigi lengur við á nokkurn hátt.

5. Veikburða sveitarfélag og björgunin mikla: Snemma árs 2017 kom að því að yfirvöld skoðuðu virkjunarhugmyndina eftir leikreglum lýðræðisins. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að virkjunin hefði verulega neikvæð umhverfisáhrif. Hins vegar er endanlegt leyfisveitingar- og skipulagsvald í höndum sveitarfélaga samkvæmt lögum en eftirlitsstofnanir eiga að gæta þess að að þeim sé farið. Því nýtti peningavaldið sér smæð sveitarfélags í neyð því engum dylst að byggð í Árneshreppi er í hættu. Fjársterkt orkufyrirtæki gerir hreppinn háðan sér, spilar með vanda hans og lofar hinu og þessu sem ætti að vera á könnu stjórnvalda. Óþarfi er að rifja upp sögur af þriggja fasa rafmagni, ljósleiðara, vegabótum, nettengingu, málningu á skólahúsið (þar sem engin börn eru eftir), gestastofu í óbyggðum sem gera á úr yfirgefnum vinnubúðum og nú síðast hafnarbótum. Reyndar er ekki að sjá í skýrslu um samfélagsáhrif virkjunarinnar í Árneshreppi að þau verði neitt sérstök þrátt fyrir þessi loforð. Þar er þetta kannski áhugaverðast þó hlálegt sé: „Hvalárvirkjun mun þannig hafa mikil áhrif á tvo bæi í Árneshreppi þar sem þó aðeins hefur verið sumardvöl síðustu ár. Annar bærinn, Ingólfsfjörður, mun fá nýjan veg en hinn bærinn, Ófeigsfjörður, mun fá rafmagn, ljósleiðara og nýjan veg.“ (sjá hér) Báðir bæirnir eru sem sagt í eyði en nýttir sem sumarhús.

Þróunarverkefnin Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun voru töluð upp af erlendum eigendum HS Orku með orðfærinu sem sjá má hér að ofan. Þar var horft á hagnaðarvon en fulltrúar VesturVerks (peðin á taflborðinu) töluðu um að leysa raforkuvanda Vestfjarða og allan hugsanlegan vanda Árneshrepps. Gegndarlaus áróður HS Orku með VesturVerk sem málpípu hefur síðan farið fram og upplýsingafulltrúi ráðinn til að telja Vestfirðingum trú um að verið væri að leysa vanda þeirra. Myndböndum var dælt út með einræðum um stóru lausnina. Auk þess skrifar upplýsingafulltrúinn greinar fullar af sérkennilegri vanþekkingu um orkumál. Til dæmis kemur þar fram sú furðuhugmynd að rafmagn renni eins og vatn, stystu mögulegu leið. Spilað er jafnt með hreppsnefnd sem örfáa landeigendur. Þó virðast háværir talsmenn virkjunar í þágu Vestfirðinga, sem eru á stór-Ísafjarðarsvæðinu, nú vera á undanhaldi og hafa breytt málflutningi sínum þannig að það sé fullkomlega eðlilegt að rafmagnið úr Hvalárvirkjun sé selt til Suðurnesja og hefur þá orðið ærinn viðsnúningur á þeim bæ.

Hvalárvirkjun er stórlausn að ofan eins og svo oft hefur sést til að „bjarga“ byggð í landinu. Ferlið undir því göfuga yfirskini hefur einkennst af vanáætlunum, stefnu- og skipulagsleysi, skorti á yfirsýn, gróðavon og siðlausum leik með vanburða hreppsnefnd. Ekki er hægt að ætlast til að örsmátt hreppsfélag standi óstutt undir öllum þeim skyldum sem lagðar eru á sveitarfélög. Því eru aðstæðurnar siðlausar þegar rammefldir hagsmunaaðilar á borð við HS Orku og lögfræðingar og verkfræðistofur í þjónustu þeirra leggja þeim orð í munn. Verulegur ágreiningur hefur löngum verið innan hreppsins um virkjunina en naumur meirihluti verið hlynntur henni. Hreppsnefnd hefur jafnan tryggt framkvæmdaraðila brautargengi í öllum sínum ákvörðunum og oddviti í stöðugu og eiginlega hjartnæmu sambandi við forstjóra HS Orku og framkvæmdastjóra VesturVerks. Ekki hefur alltaf verið farið að lögum í þessum samskiptum sem sjást í hnotskurn í harðorðu en umboðslausu erindi sem lögmaður í (óbeinni) þjónustu HS Orku sendi Skipulagsstofnun í nafni Árneshrepps til að tjá ríkisstofnuninni að málið kæmi henni ekki við og hún væri komin út fyrir hlutverk sitt. Í þessu bréfi eru hin nánu tengsl rakin nokkuð fróðlega, útskýrt að alsiða sé að framkvæmdaraðilar greiði kostnað sveitarfélags og auk þess tekinn samanburður við borgarfulltrúa Reykjavíkur þegar talað er um að kjörnir fulltrúar megi hafa skoðanir á málefnum. Hið áhugaverða er að bréfið afhjúpar hvernig framkvæmdaraðilinn getur ráðskast með þessa hluti vegna vanmættis sveitarfélagsins. Hins vegar er þáttur þess lögmanns sérstakt rannsóknarefni. Bréfið er sent í umboðsleysi því hann sendi það án nokkurs umboðs sitjandi hreppsnefndar eftir kosningar 2018 og áður en ný hreppsnefnd tók við (sjá hér). Það er því nokkuð dæmigert fyrir þær geðþóttaákvarðanir og flumbrugang sem einkenna alla söguna. Áður hefur komið fram opinberlega hver greiðir reikninga þessa lögmanns fyrir vinnuna sem að forminu til er fyrir hreppinn.

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *